Davíð Þorláksson gefur kost á sér til formennsku í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík og Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson til varaformennsku við hlið hans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þeim Davíð og Vilhjálmi.

Davíð er 28 ára lögfræðingur, formaður sjálfstæðisfélagsins í Vestur- og Miðbæ og situr í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Vilhjálmur er 26 ára meistaranemi í lögfræði við lagadeild Háskóla Íslands og er fyrrverandi formaður Orators, félags laganema. Þeir hafa báðir tekið virkan þátt í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins um árabil.

„Nú þegar verulega hefur gefið á bátinn í íslensku efnahagslífi og við völd er vinstristjórn er mjög brýnt að ungt fólk, sem vill berjast fyrir frelsi einstaklingsins, láti í sér heyra. Heimdallur á að berjast gegn því að þrengt verði enn frekari að ungu fólki með skattlagningu og höftum.“ segir Davíð í tilkynningunni.

Ný stjórn Heimdallar verður kosinn á aðalfundi sem fram fer í Valhöll, Háaleitisbraut 1, næstkomandi miðvikudag klukkan 20:00.