Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir gefur kost á sér sem formaður Heimdallar og Karl Sigurðsson sem varaformaður á aðalfundi félagsins sem haldinn verður þann 23. Ágúst nk.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þeim Áslaugu Örnu og Karli en þau segjast með framboði sínu vilja „halda úti opnu og öflugu starfi í þessu stærsta stjórnmálafélagi landsins með hugsjónir um frelsi einstaklingsins að leiðarljósi.“

Áslaug Arna er 21 árs, hefur verið virk í starfi Heimdallar að undanförnu og mun hefja laganám við Háskóla Íslands í haust. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands (VÍ) árið 2010 og lagði stund á enskunám í Cambridge á Englandi sl. haust. Áslaug var markaðsstjóri Nemendafélags VÍ 2009-2010, sat í ritnefnd Viljans 2008-2009, var í stjórn Málfundafélags VÍ 2007-2008, Markaðsnefnd Viljans 2007-2008 og var formaður Nemendafélags Árbæjarskóla.

Karl er 22 ára og situr í stjórn Heimdallar. Hann er framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins Kontrol ehf. Hann starfaði við dagskrárgerð fyrir ungt fólk hjá Ríkisútvarpinu og Sjónvarpinu 2003-2009.  Karl útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum við Sund árið 2009. Hann var ármaður skólafélagsins 2008-2009, formaður leikfélagsins 2006-2007, formaður markaðsráðs 2007-2008 auk þess sem hann gegndi öðrum trúnaðarstöðum fyrir skólann. Karl hefur síðastliðin ár starfað náið með öllum helstu framhaldsskólum Íslands við ljósa og útlitshönnun söngleikja og söngkeppna.

Í tilkynningunni kemur fram að tugir annarra Heimdellinga hyggist gefa kost á sér til ábyrgðarstarfa með þeim, sem verður kynnt nánar þegar nær dregur aðalfundinum.