Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands gefur skýrt til kynna að búast megi við vaxtahækkunum á komandi misserum í skýrslu sinni til Alþingis sem birt var í dag. Þar segir að þótt verðbólga sé enn lítil hafi verðbólguhorfur versnað miðað við spá Seðlabankans frá því í maí. Peningastefnunefnd segir að samið hafi verið um „mun meiri launahækkanir en samrýmast verðstöðugleika til lengri tíma litið.“

Þá segir peningastefnunefnd í skýrslu sinni að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í tengslum við kjarasamningana muni auka ríkisútgjöld og draga úr skatttekjum. Því feli aðgerðirnar „að öðru óbreyttu í sér slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum.“ Viðskiptablaðið greindi frá því í síðasta mánuði að miklar áhyggjur væru innan Seðlabankans vegna þeirrar þenslu sem virðist í vændum, sér í lagi ef aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar reyndist ófjármagnaður.

„Vísbendingar eru um öflugan vöxt eftirspurnar og hafa verðbólguvæntingar hækkað töluvert undanfarna mánuði. Þessir þættir ollu því að óhjákvæmilegt var að bregðast við versnandi verðbólguhorfum með hækkun vaxta í júní sl. auk þess sem útlit er fyrir að hækka þurfi vexti frekar á komandi misserum eigi að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið,“ segir peningastefnunefnd Seðlabankans í skýrslunni til Alþingis.