Delta Air Lines hefur tilkynnt að það ætli að gefa starfsmönnum sínum um 1,5 milljarð Bandaríkjadala, eða um 190 milljarða króna. Upphæðin er hlutdeild starfsmanna í hagnaði félagsins, en hún kemur til viðbótar við laun starfsmanna.

Samkvæmt fyrirtækinu þá er þetta stærsta upphæð sem fyrirtæki hefur greitt út til starfsmanna á þennan hátt. Hver einstaklingur mun fá sem samsvarar 21% af árslaunum við þessa uppbót.

Fyrirtækið hefur á síðustu árum greitt töluverðar upphæðir sem uppbót til starfsmanna. Stefna félagsins er að greiða 10% af hagnaði félagsins til starfsmanna, en það hlutfall getur aukist í 20% ef félagið hagnast um meira en 2,5 milljarða dala á tilteknu ári. Hagnaður fyrirtækisins á síðasta ári nam 5,9 milljörðum dala, fyrir skatt. Félagið greiddi á síðsta ári 1,1 milljarð dala í uppbót til starfsmanna og hefur á síðustu fimm árum greitt um það bil 4,1 milljarð dala til starfsmanna.