Gammadeild í Delta Kappa Gamma Society International, sem eru alþjóðasamtök kvenna í fræðslustörfum, afhendir Fjölbrautaskólanum í Ármúla styrk til kaupa á fleiri tækjum sem nýtast lesblindum nemendum skólans.

Fjölbrautaskólinn við Ármúla hefur um árabil stutt og aðstoðað nemendur með örðugleika í lestri- og skrift (dyslexia). Sérstakur kennslustjóri  hefur yfirumsjón með málefnum nemenda, aðstoðar þá og er talsmaður þeirra innan skólans. Í skólanum hefur verið lögð áhersla á að styðja nemendur með öllum tiltækum ráðum. Gammadeild vill í tilefni 30 ára afmælis síns gera sitt til að styrkja skólann í að vinna að þessu eftirtektarverða málefni en stefna samtakanna er m.a. að auka gæði í menntun og uppeldisstörfum.

Lesblinda hefur ekkert með greind að gera en oft er ósamræmi milli árangurs og greindar nemandans vegna hljóð- og sjónrænna erfiðleika við vinnslu upplýsinga.

Margs konar tækni nýtist því lesblindum vel:

Talgervill sem er gervirödd sem les texta. Til eru íslenskir talgervlar, Snorri og Ragga (fæst í Örtækni), en einnig er hægt að fá talgervla á ýmsum tungumálum.

Skanni: Texti er skannaður inn sem mynd sem er síðan breytt í bókstafi með aðstoð tölvuforrita, t.d. OmniPagePro12, og þá getur talgervill lesið textann.

Tölvuforrit, s.s. leiðréttingarforrit og kennsluforrit.

Upptökutæki (diktafón) nýtist vel lesblindum sem eiga erfitt með að skrifa og muna hið talaða orð m.a. til að taka upp hugmyndir sem aðrir myndu skrá niður.

Skönnunarpenni: Notandinn strýkur pennanum yfir orðið, þá birtist orðið á skjá og sumir pennar lesa orðin upphátt og útskýra þau. Einnig eru til pennar sem hægt er að nota við þýðingar á 30 tungumálum. Skönnunarpennar eru enn ekki til fyrir íslenskt mál.