Íslandsbanki hefur gefið út skuldabréf að fjárhæð 300 milljónum evra, andvirði um 40 milljarða íslenskra króna, en sagt er frá þessu í tilkynningu frá bankanum. Samtímis var tilkynnt að bankinn hefði endurkeypt hluta eldra skuldabréfs.

Hið nýja skuldabréf ber 1,125 prósent fasta vexti en það jafngildir 130 punkta álagi yfir millibankavexti í evrum. Umsjónaraðilar útboðsins voru BofA Merrill Lynch, Citi, Deutsche Bank og Morgan Stanley.

Endurkauptilboðið er fyrir allt að 300 milljónir evra að nafnvirði á 500 milljóna evra skuldabréfaútgáfu bankans sem er á gjalddaga 7. september 2020. Umsjónaraðilar þess voru þeir sömu og í skuldabréfaútboðinu.

„Mikill áhugi var á skuldabréfaútgáfunni frá evrópskum fjárfestum og var fjórföld eftirspurn eftir útgáfunni sem endurspeglar mikla trú alþjóðlegra fjárfesta á rekstri bankans og íslensku efnahagsumhverfi,“ segir í tilkynningunni.

Íslandsbanki stefnir að skráningu í kauphöllina á Írlandi eftir slétta viku og verður útgáfan nú undir 2,5 milljarða bandaríkjadollara GMTN-útgáfuramma bankans.