Stjórn Haga samþykkti tillögu Lífeyrissjóðsins Gildis sem fólst í að veita ákveðnum lykilstarfsmönnum félagsins kauprétti að 1% af hlutafé félagsins, í stað 2% samkvæmt tillögu stjórnar um kaupréttarkerfi. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Markaðsvirði 1% af öllu hlutafé Haga nemur um 741 milljón króna miðað við núverandi gengi, sem er 62,8 krónur. Heildarkostnaður félagsins vegna kaupréttanna er áætlaður vera um 95 milljónir króna á næstu sex árum.

Sjá einnig: Gildi vill lægri kauprétti hjá Högum

Gildi er stærsti hluthafi Haga með um 17% hlut og hafði óskað eftir að ákveðinn hluti lykilstarfsmanna fengi kauprétti að um 11,8 milljónum hluta, sem samsvarar 1% af hlutafé Haga. Þá fær framkvæmdastjórn kauprétti að 6,8 milljónum hluta.

Nýtingarverð kaupréttanna nemur 60,4 krónum á hlut, sem var dagslokagengi félagsins daginn fyrir úthlutun á aðalfundi Haga 3. júní síðastliðinn. Heimilt er að nýta þriðjung kaupréttarins þremur árum frá úthlutun, annan þriðjunginn fjórum árum eftir úthlutun og síðasta þriðjunginn fimm árum eftir úthlutun.