Lánasjóður sveitarfélaganna gaf út sín fyrstu grænu skuldabréf í gær, fyrir 1,1 milljarð króna að nafnvirði á 1,35% ávöxtunarkröfu.

Alls bárust 32 tilboð í skuldabréfaflokkinn sem ber nafnið LSS040440 GB að nafnvirði 3,99 milljarða króna ávöxtunarkröfu á bilinu 1,30% - 1,69%. Grænu skuldabréfin eru verðtryggð til 20 ára, með jöfnum greiðslum afborgana og vaxta á sex mánaða fresti og 1,50% föstum ársvöxtum.

Verja á afrakstri skuldabréfaútboðsins til fjármagna verkefni sveitarfélaga sem stuðla að umhverfisvernd og sporna gegn loftslagsbreytingum.

Á sama tíma gaf sjóðurinn einnig út hefðbundin skuldabréf í flokinn LSS150434. Tilboðum upp á 1,84 milljarða króna var tekið með ávöxtunarkröfuna 1,4%, eða 0,05 prósentustiga hærri ávöxtunarkröfu en grænu skuldabréfin.

Sjá einnig: Lægri vextir skilyrði fyrir grænum bréfum

Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaganna, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í desember að hann teldi betri kjör skilyrði útgáfu grænna skuldabréfa. „Ef við fáum ekki lægri vexti þá er þetta alveg tilgangslaust. Lánasjóðurinn hefur ekkert hlutverk annað en að miðla peningum.“

Hann átti þá von á því að Lánasjóðurinn gæti gefið út græn skuldabréf fyrir allt að sex milljarða á þessu ári.