Yggdrasill Carbon hefur fengið útgefnar fyrstu íslensku vottuðu kolefniseiningarnar í bið. Þær koma úr nýskógræktarverkefni á vegum félagsins á Arnaldsstöðum í Fljótsdalshreppi. Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá þessu segir framkvæmdastjóri félagsins þetta stórt skref og hann finni fyrir miklum áhuga hjá fyrirtækjum að tryggja sér þessar einingar.

„Gera þarf greinamun á vottuðum kolefniseiningum sem hafa raungerst og vottuðum kolefniseiningum í bið sem eiga eftir að raungerast. Þá er afar mikilvægt að gera greinarmun á verkefnum sem hlotið hafa vottun og þeim sem enga vottun hafa fengið. Einingar eru í bið allt þar til bindingin á bak við þær hefur raungerst, verið staðfest og ferlið vottað. Þá hafa þær raungerst og eru nothæfar á móti losun,“ segir í fréttatilkynningu.

„Það er stórt skref fyrir okkur að fá útgefnar fyrstu íslensku vottuðu kolefniseiningarnar í bið. Satt að segja er ég einstaklega stoltur af þessu og er þetta mikil viðurkenning fyrir okkar vinnu,“ er haft eftir Björgvin Stefáni Péturssyni, framkvæmdastjóra Yggdrasils Carbon.

„Við höldum okkar vinnu áfram og trúum því að vottaðar kolefniseiningar og virkir markaðir með þær séu lykillausn til þess að tryggja fjármagn í aðgerðir með mælanlegum árangri og gagnsærri upplýsingagjöf. Rétt er að minnast á að fjárfesting í kolefniseiningum kemur ekki í stað nauðsynlegra aðgerða hjá fyrirtækjum og hinu opinbera að mæla og draga úr losun sinni og leiðandi fyrirtæki hafa nú þegar hafið þessa vegferð og eru einungis að horfa til bindingar til móts við óumflýjanlega losun í rekstri og virðiskeðju.“

Fyrstu vottuðu kolefniseiningarnar á Íslandi séu vottaðar af iCert eftir kröfum Skógarkolefnis Skógræktarinnar, sem byggt sé á breska staðlinum UK Woodland Carbon Code. Nú hafi verið gefnar út vottaðar kolefniseiningar í bið í Loftslagsskrá og hver og ein eining sé komin með raðnúmer (e. serial number). Sem dæmi sé fyrsta raðnúmerið FCC-ICE-354-17-2027-CC-1-00000000 þar sem gert sé ráð fyrir að hún verði fullgild árið 2027.

„Við erum mjög stolt af því að hafa staðið við stóru orðin og ekki farið að selja einingar fyrr en að loknum framkvæmdum, staðfestingu og vottun. Aðgerðir í loftslagsmálum eru ekki skyndilausnir og því er mjög mikilvægt að stofnanir og fyrirtæki styðji með ábyrgum hætti við verkefni sem geta tryggt þeim kolefnishlutleysi árið 2040 í samræmi við markmið og skuldbindingar íslenskra stjórnvalda. Það þarf að byrja strax til að tryggja árangur árið 2040 og við finnum fyrir miklum áhuga fyrirtækja á að tryggja sér þessar nýju einingar sem munu byrja að raungerast frá árinu 2027,“ segir Björgvin ennfremur.