Bresk stjórnvöld hyggjast gerast frumkvöðlar meðal vestrænna þjóða og verða fyrst til þess að gefa út skuldabréf sem eru í samræmi við íslömsk lög. Með þessu vilja þau mæta ört vaxandi eftirspurn eftir slíkum skuldabréfum bæði utan Bretlands sem innan og styrkja þar með stöðu London sem alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar enn frekar.

Að sögn talsmanna fjármálaráðuneytisins munu fyrstu ríkisskuldabréfin sem eru í samræmi við íslömsk lög hugsanlega verða gefinn út á næsta ári. Íslömsk lög banna vaxtagreiðslur og hefur því fjármálamarkaður í ríkjum sem lúta slíkri lagasetningu þróast með tilliti til þess. Bresk stjórnvöld íhuga að gefa út svokölluð sukuk-skuldabréf en sökum þess að áþreifanlegar eignir standa að baki slíkri útgáfu er hægt að líta á greiðslur vegna þeirra sem leigu í stað vaxtagreiðslu.

Skuldabréfaútgáfan er ekki eingöngu hugsuð til þess að styrkja stöðu London á alþjóðavettvangi. Aðrir þættir skýra einnig áhuga stjórnvalda á slíkri skuldabréfaútgáfu. Haft er eftir Ed Balls, sem hefur þjóðhagsmál á sinni könnu í fjármálaráðuneytinu, að slík útgáfa muni einnig gefa breskum múslimum aukið tækifæri til þess að fjárfesta í lífeyrissparnaði og öðrum sparnaði. Á sama tíma séu bresk stjórnvöld að senda út skýr skilaboð til hins íslamska heims um að þau séu reiðubúin til þess að styrkja samskiptin á fleiri sviðum en áður.