Ungverjaland hyggst gefa út 30 ára græn ríkisskuldabréf – þau lengstu sinnar tegundar í heimi – og sameina með því tvo vinsælustu eiginleika skuldabréfa á markaðnum þessa dagana.

Boðin verða út bréf í dag að andvirði 20 milljarða ungverskra forinta, ígildi um 8,3 milljarða íslenskra króna, en alls er stefnt að útgáfu fyrir 90 milljarða forinta á árinu. Fjárfestar eru farnir að greiða meira fyrir græn skuldabréf en hefðbundin, sem þýðir lægri ávöxtunarkröfu og þar með fjármagnskostnað fyrir útgefandann.

Útgáfa áratugalangra skuldabréfa hefur verið vinsæll kostur meðal þjóðríkja á þessu ári. Ungversk yfirvöld hafa verið þar á meðal og hafa lengt markvisst í fjármögnun sinni nýverið. Þar í landi er hinsvegar fátt um langtímafjárfesta á borð við lífeyrissjóði, og því hefur eftirspurn eftir lengstu bréfunum verið nokkuð dræm.

Gjaldmiðillinn takmarkar áhuga fjárfesta
Því eru leiddar að því líkur í frétt Bloomberg um málið að græna útgáfan sé tilraun til að breikka fjárfestahópinn, en haft er eftir sérfræðingi á skuldabréfamarkaði að gjaldmiðillinn verði ungverska ríkinu fjötur um fót. Gengisáhætta og lítill seljanleiki geri það að verkum að UFS (Umhverfi, félagslegir þættir og stjórnarhættir eða ESG á ensku) fjárfestingasjóðir kaupi heldur styttri bréf í „framandi“ gjaldmiðlum, eins og það er orðað.

Seðlabanki Ungverjalands hefur þó einnig sagst vera tilbúinn að kaupa bréfin sem hluta af magnbundinni íhlutun sinni, en þrátt fyrir um 800 milljarða króna skuldabréfakaup er vaxtaferill austur-evrópuþjóðarinnar sá brattasti á svæðinu.

Markaðsálag 15 ára ríkisbréfa ofan á eins árs bréf er tæp 2,5% samanborið við 1,5-2% hjá nágrannalöndum, og hefur verið hæstur meðal þeirra frá því síðasta sumar, þegar það nánast tvöfaldaðist á rúmlega mánuði. Til samanburðar er álag 10 ára ríkisbréfa hér á landi – þeirra lengstu á markaðnum – yfir 1 árs bréf 1,9%.