Landsbankinn hefur lokið fyrstu útgáfu á sértryggðum skuldabréfum bankans upp á 1.220 milljónir króna. Skuldabréfaflokkurinn heitir LBANK CB 16 og eru bréfin óverðtryggð með föstum 6,30% vöxtum til þriggja ára, að því er segir í tilkynningu. Samhliða útgáfunni lækkar Landsbankinn kjör á óverðtryggðum íbúðalánum með föstum vöxtum til 36 mánaða úr 7,50% í 7,30%. Af heildarfjárhæðinni, 1.220 milljónum króna voru 1.160 seldar til fjárfesta. Sú upphæð sem eftir stendur verður nýtt til viðskiptavaktar vegna fyrirhugaðrar skráningar í Kauphöllina.

Útgáfa sértryggðra skuldabréfa styður við fjármögnun íbúðalánasafns bankans um leið og hún dregur úr fast vaxtaáhættu, að því er segir í tilkynningunni.

Steinþór Pálsson bankastjóri segir í tilkynningu.

„Þetta er mikilsverð viðbót við okkar fjármögnun og eftirspurn fjárfesta eftir sértryggðum skuldabréfum bankans sýnir að þeir telja stöðu Landsbankans sterka. Með útgáfunni breikkar Landsbankinn fjármögnun sína og hún gerir kleift að lækka vexti á óverðtryggðum íbúðalánum eins og til stóð. Landsbankinn hefur uppi fyrirætlanir um að gefa áfram út sértryggð skuldabréf og fyrstu viðbrögð lofa mjög góðu.“