Framleiðsla á olíu mun aukast um 25% í Bandaríkjunum á næsta ári. Gangi þær áætlanir eftir mun olíuframleiðsla vestra ekki hafa verið meiri í aldarfjórðung. Fram kemur í spá bandarísku orkustofnunarinnar (EIA) að meðalolíuverð muni fara úr um 112 dölum á tunnu í fyrra í 99 dali á næsta ári.

Í spánni segir ennfremur að gert sé ráð fyrir því að innflutningur Bandaríkjamanna á olíu muni dragast saman um sem nemur aukinni framleiðslu. Á vef breska ríkisútvarpsins ( BBC ) kemur fram að olíuinnflutningur í Bandaríkjunum hafi náð hæstu hæðum árið 2005 þegar 12,5 milljónir tunna af olíu voru fluttar inn á degi hverjum. Innflutningurinn nemur sex milljónum tunna í dag.

Í spá orkustofnunarinnar segir að Bandaríkjamenn hafi framleitt 6,4 milljónir olíutunna á síðasta ári og sé gert ráð fyrir því að þær verði 7,9 milljónir á næsta ári. Gangi það eftir verður framleiðslan með mesta móti. Annað eins hefur ekki sést þar í landi síðan árið 1988.