Að sögn Friðriks Jóhannssonar, forstjóra Straums-Burðarás Fjárfestingabanka, gefur uppgjörið félaginu aukin styrk til þess að ráðast í verkefni erlendis. "Bankinn er tilbúinn í áframhaldandi ytri og innri vöxt en markmið okkar er að vera leiðandi norræn fjárfestingabanki.

Hagnaður Straums-Burðaráss eftir skatta er rúmir 45 milljarðar króna á árinu 2006, sem skilar hluthöfum bankans 42% arðsemi eigin fjár.

Starfsmönnum bankans fjölgaði úr 45 í 109 á síðasta ári, 75 eru hér heima á íslandi en 34 eru erlendis.

"Þetta er glæsileg afkoma á ári sem hefur einkennst af arðsömum vexti, útrás og uppbyggingu innviða. Jafnframt hefur okkur tekist að tryggja sjálfstæði bankans gagnvart íslenskum markaði með því að leita nýrra leiða í fjármögnun hans. Hlutfall erlendra tekna og verkefna hefur aukist umtalsvert og veitir það bankanum traustan og fjölbreyttan tekjugrunn. Það, ásamt öflugri fjárfestingastarfsemi, mun tryggja hluthöfum okkar áframhaldandi góða arðsemi. Straumur-Burðarás er tilbúinn fyrir enn frekari innri og ytri vöxt. Markmið okkar, um að verða leiðandi norrænn fjárfestingabanki, er innan seilingar,? segir Friðrik í tilkynningu bankans.