Gylfi Magnússon hagfræðiprófessor kemst að þeirri niðurstöðu í nýlegri rannsókn sinni á Íslandsbankasölunni umdeildu – sem hann heldur erindi um á morgun á ráðstefnunni Viðskipti og Vísindi sem haldin er á vegum Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, hvar Gylfi gegnir deildarforsæti – að erfitt sé að sjá að réttlæta hafi mátt eins lágt söluverð og raunin varð.

Eins og fram hafi komið hafi söluverðið verið „talsvert langt“ undir því sem boðið hafi verið. Bankasýslan gefi þær skýringar að í tilboðssölu sem þessari sé alvana að söluverð sé lægra en dagslokagengið.

„Það er alveg rétt, en skýrir auðvitað ekki hvers vegna ákveðið var að taka ekki hæstu tilboðum í þessu tilfelli.“

Þótt markmið sölunnar hafi verið mörg hafi grundvallarmarkmiðið verið nokkuð skýrt.

„Það er neglt niður í lögum um söluna að meginmarkmiðið á að vera að hámarka afrakstur ríkisins,“ segir Gylfi og virðist einnig gefa lítið fyrir tal um að sumir tilboðsgjafar hafi gert stærri tilboð en þeir hafi ráðið við.

„Þetta virðist nú svona frekar grunnt og ruglingslegt til að átta sig á því af hverju gefinn var 2,3 milljarða afsláttur. Það er erfitt að sjá að hægt sé að réttlæta það.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar sem kom út í morgun.