Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur segir þá sem hafa kynnt sér sögu kreppuáranna á Íslandi ekki geta verið sammála þeirri söguskoðun sem kom fram í stefnuræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra að þá hafi Íslendingar sýnt það göfuga fordæmi að leysa erfið úrlausnarefni í sameiningu. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Guðni ritar í Fréttablaðið í dag.

„Sannara er að sjaldan hafa landsmenn verið eins sundurþykkir og í kreppunni miklu. Þar að auki var ríkið á vonarvöl þegar harðærinu linnti loks á Íslandi með erlendu hernámi og skyndigróða. Bjargráðin komu að utan,“ segir Guðni meðal annars.

Guðni hnýtir öðru sinni í söguskoðun forsætisráðherra í greininni þegar hann gagnrýnir ávarp hans frá 17. júní. „Á sama hátt hljóta þeir sem hafa kynnt sér sögu Íslendinga á nítjándu öld að efast um þau orð forsætisráðherra í ávarpi sínu 17. júní að þá hafi þjóðin öll trúað því að hún ætti að vera sjálfstæð og njóta sama réttar og þau nýlendu- og herveldi sem heiminum réðu. Ekki einu sinni Jón Sigurðsson vildi rjúfa öll tengsl við Danmörku um sína daga og hér bjó ekki einhuga þjóð með einn draum og einn hag,“ segir Guðni og bendir á að söguskoðun geti valdið skaða.

„Nú heyrist því stundum fleygt að efnahagsvanda Íslendinga megi að meira eða minna leyti rekja til útlendinga. Þannig beindi forsætisráðherra spjótum sínum að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Auðvitað var hann í fullum rétti til þess og ýmislegt má finna að framferði þeirra sem þar ráða ferðinni. En sögunni hefði alveg mátt fylgja að það voru íslensk stjórnvöld sem leituðu til þessara stofnana á sínum tíma. Það gerðist eftir stórkostlegt hrun á Íslandi. Bankar hrundu, gjaldmiðillinn líka og ríkið rambaði á barmi greiðsluþrots. Hrun var það og hrun skal það heita. Og orsakir ófaranna var einkum að finna hér á landi,“ segir Guðni.

Guðni nefnirmeðal annars brenglaða söguskoðun og blint sjálfshól sem hluta af orsökum ófaranna hér á landi. „Svokallað efnahagsundur á Íslandi var rakið til meintra yfirburða Íslendinga í alþjóðaviðskiptum sem áttu síðan að eiga rætur sínar í arfleifð frjálsra víkinga, landkönnuða og skálda. Fátt var fjær sanni og dramb er falli næst. Sagan sýnir það,“ eru lokaorð Guðna.