Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, annar stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Locatify segir staðsetningartækni fyrirtækisins veita fyrirtækinu sérstöðu og forskoti á markaði fyrir söfn, gallerí og sýningarsvæði að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Tækni fyrirtækisins, sem stofnað var af Steinunni og Leifi Birni Björnssyni árið 2009, gerir tölvubúnaði kleyft að staðsetja gesti í innhúsrými með mikilli nákvæmni. Fyrirtækið notar svokallaða Ultra Wide-Band-tækni, en búnaðurinn er örlítil flaga í plasthylki sem gestir bera á sér í gegnum safnið.

„Ef þú hugsar þér safn þar sem er mynd við mynd þá geta safngestir stigið eitt skref til hægri og þá kemur annar texti, hljóð eða umsögn í leiðsögukerfið sem vð höfum hannað,“ segir Steinunn Anna en fyrirtækið hefur meðal annars sett upp búnað í safninu Eldheimum í Vestmannaeyjum þó hann byggi á eldri tækni.

„Við sjáum fram á að þetta verði vinsælt, þetta er eitthvað sem hefur verið eftirspurn eftir. Við þurfum að spila vel úr því að vera fyrst með þetta á markað. En það er með þessa tækni eins og aðra að forskotið er tímabundið og svo taka aðrir þetta upp.“