*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 17. apríl 2017 11:29

Gefur grænt ljós á kaup Sands á ISS

Samkeppniseftirlitið gerir engar athugasemdir við kaup eignarhaldsfélagsins Sands á öllu hlutafé í þjónustufyrirtækinu ISS á Íslandi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið gerir engar athugasemdir við fyrirhuguð kaup eignarhaldsfélagsins Sands ehf. á þjónustufyrirtækinu ISS á Íslandi ehf. Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þann 6. apríl síðastliðinn. ISS er stærsta fyrirtækið á sviði alhliða ræstingarþjónustu á Íslandi. Fyrir samrunann var ISS alfarið í eigu alþjóðafyr­ir­tæk­is­ins ISS Facility Services A/​S í Danmörku

Sandur er einkahlutafélag og var stofnað í þeim tilgangi að vera eignarhaldsfélag utan um allt hlutafé ISS. Gangi viðskiptin eftir mun Sandur verða í eigu þriggja hluthafahópa:

  1. Hafsilfurs ehf. og P 126 ehf. Hafsilfur er í eigu Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra. P 126 er í eigu Charamino Holdings Limited, hlutafélags sem skráð er í Lúxembourg og er í eigu Einars Sveinssonar fjárfestis og bróður Benedikts.
  2. Erlendra fjárfesta sem samanstanda af einstaklingum og félögum.
  3. Stjórnenda félagsins.

Samkeppniseftirlitið segir í úrskurðinum að nýir innlendir eigendur ISS – bræðurnir Benedikt og Einar – séu „umsvifamiklir einkafjárfestar sem koma að ýmsum fyrirtækjum sem starfa hér á landi og ætla má að þeir hafi nokkuð fjárhagslegt bolmagn.“ Þó hafi fjárfestingar þeirra á öðrum mörkuðum enga sérstaka þýðingu fyrir samrunann. Erlendu fjárfestarnir hafa ekki yfirráð yfir öðrum atvinnufyrirtækjum hér á landi. Áformað er að erlendir aðilar fari með þriðjungs eignarhlut í hlutafé Sands í kjölfar samrunans og stjórnendur og fyrrnefnd einkahlutafélög tvo þriðju hluta.

Fyrsta samrunatilkynningin barst Samkeppniseftirlitinu 22. nóvember 2016. Þann 28. febrúar síðastliðinn barst eftirlitinu endanlegur kaupsamningur og hófst þá rannsókn þess á því hvort samruninn myndi hafa skaðleg áhrif á samkeppni.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins segir: „Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni og leiði ekki til myndunar markaðsráðandi stöðu. Þá leiðir hann ekki til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Því eru ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans á grundvelli 17. gr. c. samkeppnislaga nr. 44/2005.“

Stikkorð: ISS Samkeppniseftirlitið samkeppni samruni Sandur