Árni Helgason, sem nýlega lét af störfum sem framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formanns Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, starfsárið 2009-10.

Árni hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra þingflokksins frá árinu 2007 en lét sem fyrr segir nýverið af því starfi og hef ráðið sig á lögfræðistofu.

Árni hefur tekið virkan þátt í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár, einkum í ungliðahreyfingu flokksins, sat í stjórn Heimdallar starfsárið 2006-7 og hefur setið í framkvæmdastjórn SUS undanfarin tvö ár.

„Ástæða þess að ég óska eftir stuðningi í embætti formanns félagsins er sú að ég vil leggja mitt af mörkum til þess að vinna hugsjónum frelsis og einkaframtaksins fylgis meðal ungs fólks,“ segir Árni í yfirlýsingunni.

„Á tímum þegar stór hluti atvinnulífsins er kominn í hendur hins opinbera, svartsýni ríkir og ungt fólk veltir fyrir sér framtíð sinni á þessu landi þarf að vera til staðar öflugt félag ungs fólks sem berst gegn höftum og helsi.“

Kosið verður í Heimdalli annað kvöld en mótframbjóðandi Árna um formannsembættið er Davíð Þorláksson, lögfræðingur.