Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor í stjórnsýslufræðum við Háskóla Íslands, gefur lítið fyrir gagnrýni Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra á ummæli hennar, varðandi flutning Fiskistofu til Akureyrar.

Sigurbjörg gagnrýndi flutninginn harðlega fyrir helgi og sagði að um vonda stjórnsýslu væri að ræða , sem jaðri við að teljast skemmdarverk.

Gunnar Bragi varði flutninginn í pistli sem birtist á vefmiðilinn Feyki.is í gær. Ráðherrann sagði það hafa sýnt sig að flutningur opinberra stofnana út á land skili miklu fyrir samfélagið sem tekur við stofnuninni og mörg dæmi séu um stofnanir sem dafni vel á nýjum stöðum.

Þá gagnrýndi hann að Sigurbjörg, sem hafi starfað fyrir Samfylkinguna, sé fengin til að leggja mat á flutninginn opinberlega: „Sá sem hefur setið í ábyrgðarstöðum fyrir Samfylkinguna er fremur óheppilegur álitsgjafi til að gefa faglegt álit á pólitískum andstæðingi sínum sérstaklega ef hann titlar sig stjórnsýslufræðing!“ Skrifar Gunnar Bragi.

Sigurbjörg svaraði þessum ummælum í hádegisfréttum Bylgjunnar nú rétt í þessu. Hún segir ekki rétt að pólitískar skoðanir ráði ummælum hennar. Þvert á móti hafi hún margoft gagnrýnt ráðherra Samfylkingarinnar. Hún segir jafnframt klassískt að ráðherrar, sem halda á veiku máli, ráðist að starfsfólki fræðasamfélagsins. Mörg dæmi séu um að ráðherrar reyni að grafa undan málflutningi fræðasamfélagsins ef þeim líkar ekki skilaboðin.