Ragnar Zophonías Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs, á von á því að stofnfjáreigendur verði kallaðir saman í sumar til að taka afstöðu til þess hvort breyta eigi sjóðnum í hlutafélag.

Stjórn Byrs ákvað í apríl síðastliðnum að fara yfir kosti þess og galla að breyta rekstrarforminu. Í kjölfarið var skipuð þriggja manna nefnd, undir forystu Jóns Kr. Sólnes sem er í varastjórn Byrs, til að fara yfir málið.

„Engin tímamörk voru gefin en stofnfjáreigendur verða væntanlega kallaðir saman núna í sumar til að taka afstöðu til málsins,“ segir Ragnar.

Samkvæmt lögum þurfa að minnsta kosti 2/3 stofnfjáreigenda að samþykkja umræddar breytingar að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins.

Þegar Ragnar er spurður út í ástæður þess að ákveðið var að skoða breytingar á rekstrarforminu svarar hann því til að þær séu margþættar og flóknar. Kjarninn sé þó sá að lagaumhverfi hlutafélaga sé skýrara en lagaumhverfi sparisjóða. Þar með sé auðveldara að fjármagna sjóðinn.

„Við erum fjármálafyrirtæki sem vill vaxa nokkuð hratt og þetta [breyting yfir í hlutafélag] gefur okkur meiri möguleika á því að sækja fé til hluthafa.“

Þegar hann er beðinn um að nefna fleiri kosti við að breyta sjóðnum í hlutafélag svarar hann: „Það gefur okkur líka möguleika á því að sameinast fjármálafyrirtækjum sem við höfum áhuga á.“ Hann bendir á, í því sambandi, að samkvæmt lögum megi sparisjóður ekki sameinast öðru fyrirtæki nema honum hafi áður verið breytt í hlutafélag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .