Björn Leifsson, betur þekktur sem Bjössi í World Class, opnaði fyrstu líkamsræktarstöðina árið 1987. Hann segist hafa gert mistök með því að fara gegn eigin lífsspeki og horfði fram á að missa afrakstur 25 ára vinnu. Björn er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út síðastliðinn fimmtudag.

Eitt sem mig langar að spyrja þig út í er samstarf þitt við Straum og tilraunin sem þið gerðuð með að kaupa líkamsræktarstöðvar í Danmörku. Það gekk ekki eftir þá, en hefur þig langað til að reyna aftur?

„Nei,“ segir Björn hlæjandi.

Þú ert þá bara að einbeita þér að Íslandi?

„ Já ég var alltaf með það mottó hérna áður fyrr, sem ég nefndi oft við félaga minn sem hljóp oft út undan sér og fjárfesti í hinu og þessu og tapaði alltaf á því, þó að honum hafi gengið vel í seinni tíð. Ég var alltaf að segja við hann að hann ætti að halda sig við það sem hann kynni. En síðan fór ég að gera eitthvað sem ég hafði ráðlagt öðrum að gera ekki og fór í eitthvað sem ég kunni ekki.“

„Ég átti reyndar bara 25% í Equinox-stöðvunum í Danmörku og ætlaði aldrei að vera þar. Það eina sem ég gerði í þessu var að kaupa inn ný tæki, raða þeim upp og gera stöðvarnar betri að mínu mati. En það fór sem fór og það var ýmislegt sem varð þess valdandi, einkum efnahagsástandið í Danmörku og nýjar lágverðsstöðvar sem keyrðu á mjög lágu verði. Þegar við komum út þá keyptum við tólf Equinoxstöðvar en þá var þessi samkeppnisaðili, Fitness World, með sex stöðvar. Þeir hirtu síðan líkið okkar og eru í dag komnir með 150 stöðvar og eru langstærstir.“

Hvaða lærdóm má draga af þessu?

„Lærdómurinn er sá að halda sig við það sem maður kann. Mér hefur gengið vel í Reykjavík. Ég reyndi til dæmis við Akureyri fyrir einhverjum fjórtán árum síðan. Ég var þar í fjögur eða fimm ár og ég tapaði 40 milljónum á því. Það hefði átt að segja mér það að halda mig við það svæði sem ég kann á. Þannig að framtíðarmúsíkin hjá mér er að halda mig við mitt svæði og gera það vel.“

Nánar er spjallað við Björn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .