Fyrirtækið Iceland GeoSpace var stofnað af hótelstjóranum og sveitarstjórnarmanninum Örlygi Hnefli Örlygssyni og er fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjálfun geimfara. Fyrirtækið sem hefur aðsetur á Húsavík er stofnað í kringum geimsafnið sem er þar í bæ. Iceland GeoSpace hefur nú þegar gert samning við tvö erlend fyrirtæki sem sérhæfa sig í geimiðnaði. Annað þeirra er finnska fyrirtækið Space Nation en það sér um þjálfun geimfaranema. Hitt er bandaríska fyrirtækið Fort Planet Logistic en það sérhæfir sig í þróun búnaðar fyrir geimiðnað.

Örlygur segir að í sögunni hafi geimfarar margoft komið hingað til lands til að undirbúa sig undir förina út í himingeiminn. Frægasta dæmið um það er að sjálfsögðu hinn þekkti geimfari Neil Armstrong. Hann, líkt og frægt er, lenti á tunglinu á geimfarinu Apollo 11 árið 1969. En Apollo 11-geimfararnir þjálfuðu sig fyrir förina út í geiminn á Íslandi árin 1965 og 1967.

„Þannig kviknaði í raun hugmyndin að þessu. Ég heyrði söguna af því að Apollo-geimfararnir hafi komið hingað til landsins og lært jarðfræði. Mér fannst þetta mjög merkilegt en fannst jafnframt eins og það væri enginn að segja söguna,“ bætir hann við.

Safn um geimvísindi

Könnunarsafnið á Húsavík er safn um sögu geimsins og geimleiðangra. Safnið var opnað árið 2014 og eru þrír starfsmenn sem vinna að uppbyggingu safnsins samhliða Iceland GeoSpaceverkefninu. Aðalsýning safnsins fjallar um æfingar amerísku tunglfaranna hérlendis árin 1965 og 1967.

„Við erum í raun að byggja upp sýningu um æfingar tunglfaranna. Við byrjuðum árið 2013 að bjóða erlendum geimförum hingað. Höfum fengið geimfara sem hafa gengið á tunglinu, þeim sem hafa farið umhverfis tunglið og einnig fjölskyldur geimfara sem eru látnir. Við fengum til dæmis til okkar fjölskyldu Neils Armstrong sem var fyrstur til að ganga á tunglinu. Það var mikil upplifun fyrir þau að koma hingað. Sérstaklega þótti sonum hans mikil upplifun að koma á staðinn þar sem faðir þeirra hafði verið að æfa,“ segir Örlygur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .