Jeff Bezos, stofnandi og forstjóri smásöurisans Amazon auk eldflaugafyrirtækisins Blue Origin, telur mögulegt að hefja geimferðaþjónustu árið 2018. Þetta sagði Bezos við blaðamenn í gær.

„Við munum að öllum líkindum gera tilraunir með flugmenn á næsta ári, og ef það gengur vel myndi mér hugnast að ráða sérhæfða geimflugmenn árið 2018 til þess að ferðast með farþega,” sagði Bezos.

Blue Origin áætlar að byggja sex nýjar New Shepard eldfalugar á næstu árum, en þær eiga að geta flutt sex farþega í 100 kílómetra fjarlægð yfir jörðinni.  Það gerir farþegunum kleift að upplifa þyngdarleysi í nokkrar mínútur og sjá jörðina í samhengi svartnættis geimsins.

Eldflaugum Blue Origin hefur þegar tekist að lenda aftur eftir geimskot, en hörð samkeppni ríkir milli fyrirtækisins og SpaceX, fyrirtækis í eigu Elon Musk sem sérhæfir sig í sama iðnaði.