Geir H. Haarde, nú starfandi forsætisráðherra bauð Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra fyrir áramót að verða fjármálaráðherra auk þess sem ræddar voru frekari breytingar á ríkisstjórninni.

Þetta upplýsti Geir í Ísland í dag á Stöð 2 fyrir stundu en miðast var við að breytingar hefðu orðið á ríkisstjórninni á gamlársdag s.l.

Geir sagði að það hefði styrkt ríkisstjórnina ef Samfylkingin hefði tekið við fjármálaráðuneytinu og hann efaðist ekki um að Ingibjörg Sólrún hefði orðið góður fjármálaráðherra, sem Geir sagði vera næstvaldamesta ráðherraembætti í ríkisstjórn.

Geir sagði að Ingibjörg Sólrún hefði verið góður og traustur samstarfsmaður en hins vegar hefði hún verið með afar ótraustan flokk á bakvið sig. Í því samhengi gagnrýndi Geir sérstaklega Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar og sagði hann hafa farið gegn ríkisstjórninni.