Þess er krafist daglega, af fámennum en reiðum mótmælendum, að Geir H. Haarde, forsætisráðherra segi af sér embætti og hann hefur sést með vopnuðum lífvörðum í ræktinni.

Þannig byrjar umfjöllun BBC í dag um ástandið hér á Íslandi en þar er tekið fram að þrátt fyrir að forsætisráðherrann hvetji til þess að lífið haldi áfram krefst hann þess einnig að höfðað verði mál gegn breskum yfirvöldum vegna aðgerða þeirra í kjölfar bankahrunsins.

„Það þarf sérstaklega að skoða málefni Kaupþings,“ segir Geir í samtali við BBC og segir að mögulega hafi aðgerðir breska fjármálaeftirlitsins gegn dótturfélagi Kaupþings í Bretlandi, Kaupthing, Singer and Friedlander leitt til hruns móðurfélagsins hér heima.

Þá kemur fram í umfjöllun BBC að mögulega geti Kaupþing einnig höfðað einkamál gegn breskum yfirvöldum.

„Ég skil ekki enn hvers vegna bresk yfirvöld gripu til þess að grípa til [hryðjuverka]laga, svona miðað við umfang málsins,“ segir Geir í samtali við BBC aðspurður um notkun hryðjuverkalaga gegn íslensku bönkunum.

Sjá umfjöllun BBC.