„Það eru engir skuldarar öðrum merkilegri í íslensku viðskiptabönkunum og það eiga allir að fá sömu meðferð," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á Alþingi í dag, þegar hann var spurður út í milljarða afskriftir á skuldum bankamanna í Kaupþingi í lok september.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að þetta yrði að rannsaka strax sem sakamál.

Geir minnti á að dómsmálaráðherra hefði þegar falið tilteknum mönnum að hefja rannsókn á hruni bankakerfisins. Hann sagði að Fjármálaeftirlitið ynni að öðrum málum, sem vörðuðu annars konar athæfi, eins og hann orðaði það, en væru ef til vill ekki saknæm.

„Ég veit ekki betur en að unnið sé að slikum athugunum eins og efni standa til," sagði hann og bætti við að ekkert yrði undan dregið í þeim efnum.

Ný bankaráð skipuð í vikunni

Þá sagði Geir að gengið yrði frá skipun varanlegra bankaráða á næstu dögum í samráði við stjórnarandstöðuna. Það hefði þó dregist lengur en til stóð. Allir flokkar myndu eiga fulltrúa í bankaráðunum.