Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir afstöðu flokksins til inngöngu í Evrópusambandið ekki byggða á trúarbrögðum heldur mati á kosti og göllum þess að sækja um aðild.

Þetta sagði Geir á fundi í Valhöll fyrir skömmu en Sjálfstæðisflokkurinn opnaði í dag vef Evrópunefndar flokksins, www.evropunefnd.is

Geir sagði að bestu rök sem hann hefði heyrt fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu hefðu hingað til komið frá sjálfstæðismönnum.

Að sama skapi hefðu hins vegar rökin fyrir því að ganga ekki í Evrópusambandið einnig komið frá Sjálfstæðismönnum.

Því væri ljóst að mikil umræða hefði farið fram meðal flokksfélaganna. Í ávarpi sínu sagði Geir að mikilvægt væri að frekari umræða skapast um málið innan flokksins fram að landsfundi sem haldinn verður í lok janúar.