Geir H. Haarde, forsætisráðherra skaut nokkuð föstum skotum á þá aðila sem efast hafa um sjóhæfni íslensku bankanna í yfirstandandi öldudal og sagði meðal annars: „Þess ber líka að geta að þó svo að íslensku bankarnir finni fyrir áhrifum þess gáleysis sem einkenndu undirmálslánveitingar bandarískra banka, hafa þeir haft lítið að gera með hina flóknu skuldagjörninga sem dregnir hafa verið í dagsljósið undanfarna mánuði. Íslensku bankarnir hafa sýnt meiri aðgætni og varfæri en margir á sama markaði,” sagði Geir.

Geir fór mörgum orðum um íslenska hagkerfið og breytingar sem orðið hafa á starfsumhverfi fyrirtækja hérlendis liðinn áratug; skattalækkanir, einkavæðingu, aukna þátttöku í alþjóðavæðingunni, sterka lífeyrissjóði, hagfellda afkomu ríkissjóð og þann frumkvöðlaanda og dug sem sett hafi mark sitt á fjárfestingar Íslendinga.

„Það er rétt að á seinustu árum hefur aukinnar spennu gætt í íslenskum efnahagsmálum og það er fullkomlega skiljanlegt að margir þeirra sem standa utan við Ísland þurfi frekari skýringa við. En í ljós kemur þegar margir orsakaþættir eru skoðaðir nánar að þeir eiga sér frekar augljósar og einfaldar skýringar,” sagði Geir og benti m.a. á virkjunargerð og stóriðjuframkvæmdir í því sambandi.

Það hilli hins vegar undir lokin á þeim framkvæmdum og ásamt minnkandi umsvifum á verktakamarkaði, hægari fasteignasölu og fleiri þátta væri hann fullviss um að jafnvægi myndi nást að nýju í þjóðarbúskapnum.