Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að hann hefði trúað því, fram undir það síðasta, að það myndi rætast úr málefnum bankanna.

Hann hefði haldið því fram vikuna áður en bankarnir hrundu, í erlendu sjónvarpsviðtali, að þeir stæðu vel. Hann hefði byggt það á álagsprófi Fjármálaeftirlitsins frá því í ágúst og „á grundvelli þeirra upplýsinga sem maður hafði sjálfur frá bönkunum sem héldu því fram að þeir væru búnir að fjármagna sig út árið 2009."

Geir var þarna að svara fyrirspurn Jóns Magnússonar, þingmanns Frjálslynda flokksins.

Jón spurði út í þá fullyrðingu Davíðs Oddssonar Seðlabankastjóra að hann hefði sagt í júní að það væru núll prósent líkur á því að íslensku viðskiptabankarnir myndu lifa af.

Enginn átti von á því að svona illa færi

Geir sagði í fyrstu að það hefði legið fyrir að Seðlabankinn hefði haft áhyggjur af þróun mála varðandi viðskiptabankana.

„Mig rekur ekki minni til þess að það hafi verið haldinn neinn sérstakur fundur um þau mál og hef ekki séð það í mínum gögnum í júní mánuðum síðastliðnum."

Geir kvaðst heldur ekki kannast við að sagt hefði verið við sig í samtali að núll prósent líkur væru á því að bankarnir myndu lifa af.

„Ég kannast hins vegar við mörg símtöl og samtöl við formann bankastjórnar Seðlabankans um þessi mál, þar sem við höfum rætt þessi atriði, bæði formlega og óformlega. Auðvitað hafði hann eins og við öll, sem að þessu málum komum, þungar áhyggjur af því hvert gæti hugsanlega stefnt í þessum málum - þó ekkert okkar hafi gert sér kannski grein fyrir því eða átt von á því að svo illa færi sem fór."