Geir H. Haarde forsætisráðherra hótar beinum aðgerðum gegn alþjóðlegum vogunarsjóðum sem sagðir eru hafa ætlað sér það eitt að skaða íslenskt efnahagslíf. Þetta kemur fram í umfjöllun Financial Times.

„Við viljum losna við þetta fólk af bakinu og íhugum nú hvaða aðgerðir eru mögulegar,“ sagði Geir H. Haarde í samtali við Financial Times. Aðspurður um nákvæmar aðgerðir neitaði Geir að gefa þær upp og sagði að „bjarnagildrur þyrftu að koma á óvart.“

Blaðið hefur eftir Geir að íslenska fjármálakerfið hefði orðið fyrir árásum vogunarsjóða sem hann segir reyna öll ráð til að græða peninga.

„Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa nokkra möguleika til að bregðast við en við höfum ekki notað þá alla enn,“ hefur blaðið eftir Geir.

Umfjöllun um Ísland og viðtalið við Geir kemur í framhaldi af endurskoðun Fitch Rating og Standard & Poor‘s frá því í gær þar sem matsfyrirtækin tvö settu Ísland á neikvæðar horfur í athugun á lánshæfismati.

Efnahagslífið stöðugt en þolinmæðin á þrotum

Þá segir blaðið að þolinmæðin sé á þrotum á íslenskum mörkuðum. Fjármálaeftirlitið hafi sett á fót rannsókn vegna mögulegra ólöglegra aðgerða vogunarsjóða og þá segir blaðið að formaður bankaráðs Seðlabankans (Davíð Oddsson) hafi sagt fyrir helgi að landið væri undir árás óprúttinna aðila.

Í umfjöllun Financial Times kemur fram að íslensku bankarnir hafi vaxið mikið á síðustu árum og segir blaðið það hafa orsakað mikla verðbólgu þar sem mikið fé hafi verið fengið að láni auk þess sem miklar framkvæmdir hafi verið á landinu síðustu ár.

Hins vegar bendir blaðið á að bæði hagfræðingar, greiningadeildir og matsfyrirtæki hafi sagt að íslenskt efnahagslíf sé stöðugt, lífeyriskerfið sé vel hannað og lausafé bæði bankanna og ríkissjóðs sé næginlegt.