Geir H. Haarde, forsætisráðherra hefur gefið til kynna væntingar um að Bretar og Hollendingar komi ekki í veg fyrir væntanlegt 2,1 milljón dollara lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta kemur fram í hollenska dagblaðinu Het Financieele Dagblad.

Þar er samkomulag IMF og ríkisstjórnarinnar gert að umfjöllunarefni og segir að niðurstöðu sé að vænta frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í þessari viku.

Í umfjöllun blaðsins segir að Geir telji vandamálið með hollenska og breska Icesave innistæðueigendur sé aðskilið láni frá IMF. „Við gerum ekki ráð fyrir að þessi tvö mál séu tengd í fjárhagslegum skilningi,“ segir Geir. Ennfremur segir hann: „Ég býst ekki við því að Bretar og Hollendingar beiti sér fyrir því að IMF setji sérstök skilyrði á lánið til Íslands.“

Þá segir að Geir hafi verið í Helsinki á mánudaginn sl. meðal annars til þess að biðja vinaþjóðir, þar á meðal Noreg, Svíþjóð, Rússland og Japan, að veita Íslandi 4 milljarða dollara að láni, og að Noregur og Svíþjóð hafi nú þegar gefið í skyn vilja sinn til að aðstoða.

Þar kemur einnig fram að Geir segi íslensku þjóðina ekki geta leyst vandann – sem hrun bankanna hefur leitt til – án hjálpar. Hann hafi þó komið því til skila að Ísland muni standa við skuldbindingar sínar en á sama segir hann að Ísland geti ekki staðið skil á öllum þeim kröfum sem Bretar hafa lagt fram.

Í fréttinni er einnig greint frá erfiðum samskiptum Íslendinga og Breta frá því að Gordon Brown beitti hryðjuverkalögum og frysti eignir íslensku bankanna. Þá segir að viðræður milli ríkisstjórnarinnar og sendimanna frá Bretlandi í Reykjavík í síðustu viku, í þeim tilgangi að endurvinna tengsl þjóðanna, hafi ekki gengið eftir óskum. Þar hafi báðir aðilar lagt fram tillögur en samkomulag ekki náðst.

Í umfjöllun hollenska blaðsins segir að lokum að Ingibjörg Sólrun Gísladóttir utanríkisráðherra segi Ísland of lítið til þess að leyfa deilunum við Breta að stigmagnast. „Sem lítið land erum við háð alþjóðlegum lögum og reglum. Þegar allt kemur til alls, þá höfum við ekki þann pólitíska styrk og vald sem við þurfum til að koma vilja okkar á aðrar þjóðir fram.“