„Vantraust hefur myndast innbyrðis milli banka, þeir hafa haldið að sér höndum og aukið lausafé sitt í stað þess að lána það viðskiptavinum eða öðrum bönkum. Þegar smurolían hverfur stöðvast vélin að lokum. Því hafa seðlabankar í helstu iðnríkjum ítrekað þurft að gera ráðstafanir til að forða lausafjárkreppu og stuðla að auknu framboði banka á lánsfé. Sama hefur Seðlabanki Íslands gert að undanförnu,“ sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra í ávarpi sínu á ársfundi Seðlabanka Ísland rétt í þessu og gerði að umfjöllunarefni sínu þá lausafjárkrísu sem myndast hefur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum undanfarið.

Uppsveiflunni í íslensku efnahagslífi lokið

„Allt bendir til að lokið sé að sinni mikilli uppsveiflu í íslensku efnahagslífi. Áðurnefndar þrengingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa leitt til þess að horfur í heimsbúskapnum eru nú verri en áður. Við það versna ytri aðstæður þjóðarbúskapar okkar sem, ásamt þeirri staðreynd að nú sér fyrir endann á stóriðjuframkvæmdunum á Austurlandi, mun hafa afgerandi áhrif á efnahagsþróun hér á landi á næstu misserum og valda því að um hægist í íslensku efnahagslífi,“ sagði Geir.

Hann sagði að þensla í efnahagslífinu myndi minnka gengju spár eftir og að hagkerfið myndi leita jafnvægis á ný eftir miklar uppbyggingar sem Geir sagði hafa styrkt stoðir íslensks atvinnulífs og eiga eftir að skila þjóðarbúinu miklum auði um langa framtíð.

Unnið að tímasetningu ráðstafanana í skattamálum

„Ríkisstjórnin hafði vitaskuld búið sig undir þá atburðarás sem fyrir lá við gerð fjárlaga sem og með mótvægisaðgerðum vegna samdráttar í þorskafla. Þá ákvað ríkisstjórnin sérstakar ráðstafanir, meðal annars í skattamálum, í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Nú er unnið að útfærslu þeirra og er tímasetningum hagað með þeim hætti að þær stríði ekki gegn viðleitni Seðlabankans gagnvart verðbólgumarkmiðinu,“ sagði Geir.