Geir H. Haarde, forsætisráðherra sagði á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins að í þeirri miklu umræðu sem verið hefði um stöðu íslensku bankanna hefur farið minna fyrir umræðu um aðrar atvinnugreinar sem Geir sagði ekki síður mikilvægar í íslensku efnahagslífi.

„Þar má nefna sjávarútveginn sem er orðinn gríðarlega öflugur og nútímalegur atvinnuvegur og er sem fyrr afar mikilvægur fyrir þjóðarbúið,“ sagði Geir.

Þá sagði hann að önnur atvinnugrein sem hefði farið ört vaxandi á undanförnum árum væri ferðaþjónustan og sagði Geir hana vera nú orðin ein af undirstöðugreinum efnahagslífsins.

Loks minntist Geir á hátæknigreinar sem hann sagði hafa dafnað vel að undanförnu og teygt anga sína til margra landa, jafnt í Evrópu sem Asíu og víðar.

Að lokum nefndi hann orkuauðlindir landsins sem hann sagði verða sífellt verðmætari eftir því sem þrengir að í orkubúskap heimsins.

Sterk staða lífeyrissjóðanna

Geir sagði líka rétt að halda því til haga að „staða lífeyrissjóðanna hér á landi er afar sterk og lífeyrissjóðakerfið í heild sinni sjálfbært.“

„Okkur hættir til að taka þessu sem sjálfsögðum hlut en svo er alls ekki,“ sagði Geir.

Hann sagði samanburð við önnur lönd leiða í ljós að víðast hvar búi menn við þannig kerfi að lífeyrisgreiðslur á hverju ári væru fjármagnaðar með samtímasköttum en ekki úr sjóðum sem hafa verið byggðir upp um áratugaskeið með reglubundnum innborgunum launafólks.