Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi rétt fyrir hádegi að staðan í efnahagsmálum hérlendis væri ekki komin á það stig að það kallaði á sérstakar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Lækkun á öllum mörkuðum mætti rekja til þess að fimmti stærsti fjárfestingabanki Bandaríkjanna, Bear Stearns, hefði riðað til falls.

Geir benti á að vænta væri niðurstaðna nefndar fjármálaráðherra um aðra skipan á opinberri gjaldtöku af eldsneyti. Að öðru leyti myndi ríkisstjórnin fylgjast grannt með framvindunni.

Ekki væri ljóst hvort um yfirskot væri að ræða þegar litið er til veikingar krónunnar en hann benti á að gengið hennar hefði lengi verið talið of hátt skráð en breytingarnar nú væru vissulega skarpari en menn hefðu átt von á.