Endanlegar tölur um skuldir ríkisins og þjóðarinnar liggja ekki fyrir að sögn Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Til að mynda liggur ekki fyrir, segir hann, hvað fæst upp í skuldir vegna Icesave-reikninga Landsbankans.

Þetta kom fram á Alþingi rétt í þessu.

Geir sagði enn fremur að ekki lægi fyrir hve ríkið þyrfti að nota mikið af lánunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum þeim vinaþjóðum sem lofað hefðu lánum til Íslendinga.

Krefst nýrra kosninga

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, krafðist þess á Alþingi í dag að efnt yrði til þingkosninga. Hann sagði að ríkisstjórnin væri umboðslaus.

Geir svaraði því til að tillaga um vantraust á ríkisstjórnina hefði verið felld á Alþingi fyrir jól. Það staðfesti að ríkisstjórnin hefði meirihluta þingsins á bakvið sig.

Ögmundur kallaði utan úr sal að stjórnin væri umboðslaus en Geir svaraði því til úr pontu að Ögmundur gargaði eins og hann væri á útifundi.

Mótmælendur fyrir utan þinghúsið

Fjöldi manns er nú fyrir utan þinghúsið þar sem þess er meðal annars krafist að boðað verði til þingkosninga. Lögreglan hefur beitt piparúða til að halda mótmælendum í skefjum.

Á skiltum mótmælenda stendur meðal annars: "Landráð af gáleysi er landráð" og "Þjóðníðingar." Mótmælendur berja meðal annars trommur og pottalok, blása í lúðra og hrópa: Vanhæf ríkisstjórn.

Þetta virðist þó ekki trufla þingfundinn, þegar þetta er skrifað, en þar fara nú fram fyrirspurnir til ráðherra.

Hlé var gert á þingfundi fimm mínútur í þrjú í tuttugu mínútur vegna fundar forseta þingsins með formönnum þingflokka.  Síðan þá hefur þingfundi aftur verið frestað.

(Fréttin var uppfærð kl. 14.55).