Geir H. Haarde sagði í ávarpi sínu á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins ljóst að íslenska þjóðarbúið hefur orðið fyrir nokkrum búsifjum að undanförnu vegna þeirra hremminga sem orðið hafa á alþjóðafjármálamörkuðum.

Þær hafi leitt til þess að bankar um allan heim hafi dregið úr útlánum til að treysta lausafjárstöðu sína.

,,Þetta hefur einnig gerst hér á landi, ekki aðeins hjá stóru viðskiptabönkunum heldur einnig minni bönkum og sparisjóðum,“ sagði Geir.

Hann sagðist efast um að nokkurn hafi grunað þegar fréttir bárust af því sl. sumar að tveir vogunarsjóðir bandaríska fjárfestingarbankans Bear Stearns ættu í erfiðleikum, að Íslendingar stæðu þá á þröskuldi þrenginga sem ættu eftir að skekja fjármálamarkaði um heim allan og færa stærsta hagkerfi heims fram á brún skarprar efnahagslægðar með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heimsbúskapinn.

,,Ég efast líka um að nokkurt okkar hafi grunað að innan nokkurra mánaða ætti Ísland eftir að verða svo umtalað í viðskiptafréttum fjölmiðla víða um lönd dag hvern að jaðraði við þráhyggju. Og ég efast um að nokkurt okkar hafi trúað því að Ísland ætti eftir að verða skotspónn spákaupmanna eins og nú virðist hafa orðið raunin – hvað þá að virtur erlendur fræðimaður yrði varaður við mannorðsmissi ef hann héldi áfram að greina opinberlega frá jákvæðu viðhorfi sínu til íslensks efnahagslífs og íslensks bankakerfis,“ sagði Geir.

Þá sagði Geir að á bandarískum fjármálamörkuðum hefði verið hægt að markaðssetja og verðleggja nánast alla greiðslustrauma á hvaða áhættustigi sem var. Þannig hefði verið blandað saman miklum áhættulánum og öðrum áhættuminni í svokölluðum skuldabréfavafningum sem fjármálastofnanir versluðu með.

,,En á endanum var gengið of langt og spilaborgin hrundi. Sem betur fer flæktust íslenskar fjármálastofnanir ekki nema að óverulegu leyti inn í þetta en þær hafa hins vegar orðið fórnarlömb þessara aðstæðna og verða að horfast af raunsæi í augu við það með því m.a. að auka kostnaðaraðhald, losa um eignir og draga tímabundið úr umsvifum sínum,“ sagði Geir.