„Eins og þið vitið hafa verið teknar miklar ákvarðanir er varða fjármálaheiminn á Íslandi. Glitnir banki óskaði eftir því að ríkisstjórnin kæmi til skjalanna og veitti aðstoð til þess að bankinn gæti mætt sínum skuldbindingum. Niðurstaðan úr þeirri athugun er sú sem þið þekkið, að ríkið leggur fram hlutafé að veðmæti 84 milljarða íslenskra króna, eða jafnvirði 600 milljóna evra. Til þess að bankinn geti haldið áfram starfsemi eins og ekkert hefði í skorist."  Þetta sagði Geir  H. Haarde  forsætisráðherra  á  fréttamannafundi sem hann efndi til nú í hádeginu.

„Það er það sem ég legg áherslu á, núna þegar þessi niðurstaða er fengin, að viðskiptavinir Glitnis og starfsmenn bankans geta treyst því að þarna er áfram á ferðinni öflugur og traustur banki sem gætir hagsmuna viðskiptavina sinna. Þegar mál sem þessi koma upp þá eru það hluthafarnir sem fyrst og fremst verða fyrir tjóni. Erlendis hefur það oft verið þannig upp á síðkastið að hluthafar hafa tapað öllu sínu, en það er ekki nauðsynlegt í þessu máli, þó að höggið sem þeir verða fyrir sé óneitanlega töluvert," sagði Geir.

Skylda ríkisvaldsins að tryggja fjármálastöðugleika

„Ég vil vekja athygli á því að þessi staða er núna upp komin vegna aðstæðna sem stjórnendur Glitnis ráða ekki við og bera ekki ábyrgð á. Í kjölfar hamfaranna á fjármálamörkuðum erlendis þá var sú staða upp komin að þeir gátu lent í erfiðleikum með að standast skuldbindingar. Það er mikil áhættufælni á erlendum mörkuðum, og óhætt að segja það að sú staða sem nú er komin upp varðandi Glitni sé dæmi um hversu fjármálakerfi heimsins eru orðin nátengd. Þannig að það er ekki við stjórnendur eða starfsmenn Glitnis að sakast hvernig komið er við núna. Ríkisvaldið hefur skyldum að gegna þegar kemur að fjármálamörkuðum. Það er skylda ríkisvaldsins að tryggja fjármálastöðugleika eftir bestu getu. Það er líka mikilvægt að ganga þannig frá málum að um bankana ríki sem minnst óvissa og sem mest traust. Við erum þess vegna ákveðin að fara þessa leið til þess að tryggja hag innistæðueigendanna og stuðla að fjármálastöðugleika í landinu. Þetta eru miklir peningar sem eru lagðir fram af almannafé. Þetta er hlutafé, ekki styrkur og ekki heldur lán," sagði hann ennfremur.