„Þetta er mikið drengskaparbragð af hálfu Færeyinga, vina okkar og nágranna,“ segir  Geir H. Haarde, forsætisráðherra í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu í dag, degi eftir að tilkynnt var um gjaldeyrislán Færeyja til Íslands.

„Þessi stuðningur er ómetanlegur á erfiðum tímum. Við þurfum að koma jafnvægi á í efnahagslífinu og metum mikils að vinir okkar sýni stuðning í verki,“ segir Geir í tilkynningunni.

Eins og greint var frá í gær hafa Færeyingar boðist til að lána Íslendingum 300 milljónir danskra króna eða því sem jafngildir um 45 milljónum evra.

Boðið var sett fram á fundi í Helsinki þar sem þing Norðurlandaráðs stendur yfir en færeyska lögþingið samþykkti lánið í dag.