Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun vera afar ánægður að það skuli vera komin niðurstaða í mál borgarinnar, úr því að upp úr fyrri meirihluta slitnaði – þegar hann var spurður um nýmyndaðan meirihluta í Reykajvíkurborg.

Geir sagði að þegar horft yrði til baka á kjörtímabilið yrði horft á þetta sem kjörtímabil Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, með tíu mánaða fráviki.

Hann sagðist ekki vera í vafa um að nýverandi meirihluti myndi halda. Hann sagði málefnasamninginn frá upphafi kjörtímabilsins vera mjög góðan og nú hygðist meirihlutinn bæta við hann í ljósi aðstæðna sem blasi við í atvinnu- og efnahagsmálum.

Geir minnti á að það hafi ekki verið Sjálfstæðisflokkurinn sem sleit meirihlutasamstarf flokkanna á síðasta ári og vísar þar til fyrri meirihluta flokksins með Framsóknarflokknum.

„En það er hans núna að tryggja það að hér verði traustur meirihluti út kjörtímabilið,“ sagði Geir. „Ég treysti Framsóknarflokknum í því samstarfi.“

Geir sagði aðspurður um hvort verið væri að leita að nýjum leiðtoga fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borginni ekki hafa heyrt af því.

„Hanna Birna [Kristjánsdóttir] er nýtekinn við og rétt að hún fái tækifæri,“ sagði Geir. „Ég er alveg viss um að hún verður flottur borgarstjóri og mun leiða okkur í gegnum næstu kosningar.“