„Ef við ætlum að skipta um peningamálaumgjörð - sem vel kemur til greina- þarf að fara í það mál þegar við erum komin í gegnum þetta," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á blaðamannafundi sem nú er nýlokið í Ráðherrabústaðnum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði einnig aðspurð um peningamálastefnuna að samkomulag væri í gildi frá árinu 2001. Það samkomulag þyrfti að skoða.

Hún vísaði síðan til ummæla Geirs frá aðalfundi Seðlabankans í mars en þar talaði hann um að gerð yrði úttekt á peningamálastefnunni.

„Það stendur," sagði hún.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar gerðu grein fyrir því á fundinum að Íslendingar hefðu formlega óskað eftir aðstoð IMF.

Enginn ágreiningur í ríkisstjórn

Þau Ingjbörg Sólrún og Geir sögðu aðspurð á fundinum að einhugur væri um það í ríkisstjórn Íslands að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

„Stjórnarflokkarnir eru sammála um þessa aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins," sagði Geir.

„Við höfum verið að vinna að þessu undanfarnar vikur og róa fyrir allar víkur í málinu þannig að það væri ekkert óljóst eða óklárt varðandi skilyrði," sagði hann.

Ingibjörg Sólrún tók í sama streng. Fullur einhugur væri í ríkisstjórninni um aðkomu IMF.