"Fólk þarf ekki að óttast innistæður sínar í Glitni frekar en í öðrum bönkum," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í stefnuræðu sinni, sem hann flytur nú á Alþingi. Hann sagði þar enn fremur að galdeyrisforði Seðlabankans hefði verið fimmfaldaður og að engum ætti að detta annað í hug en að haldið yrði áfram á þeirri sömu braut.

Geir sagði enn fremur að ríkisstjórnin myndi með öllum ráðum tryggja stöðugleika fjármálakerfisins.

Ríkið tók Glitni ekki með valdboði

Geir kom víða við í ræðu sinni. Hann sagði að fullyrða mætti að íslensk stjórnvöld, fyrirtækin og heimilin í landinu hefðu sjaldan staðið frammi fyrir jafn miklum erfiðleikum og nú blöstu við. Skollið væri á gjörningaveður í efnahagskerfi heimsins. "Við íslendingar gefumst ekki upp þó á móti blási," sagði hann.

Geir fór meðal annars yfir Glitnismálið og sagði að tilgangurinn með samkomulaginu við Glitni hefði verið að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda og viðskiptavina bankans. "En ekki síður að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu með því að styrkja áframhaldandi rekstur bankans. Við höfðum hagsmuni almennings að leiðarljósi við þessa ákvörðun og fólk þarf ekki að óttast um innstæður sínar í Glitni frekar en öðrum bönkum hér á landi."

Hann sagði að ríkissjóður stefndi ekki að því að eiga hlut í Glitni til langframa og myndi selja hann þegar aðstæður leyf'ðu. "Frumkvæðið í þessu máli kom frá forsvarsmönnum Glitnis og því fer fjarri að ríkið hafi yfirtekið Glitni með valdboði eða sóst sérstaklega eftir því að eignast í bankanum."