Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Íslendingar séu að gjalda þess að innistæðutryggingakerfi Evrópusambandsins sé meingallað. Hann segir framkomu ESB gagnvart Íslendingum vegna Icesave-reikninganna vera hörmulega.

Þetta kom fram í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

Geir sagði að ESB hefði í Icesave-málinu beitt valdi gagnvart litlu ríki eins og Íslandi. Það væri hörmulegt. „Við erum líka að mörgu leyti að taka á okkur afleiðingar þess að innistæðutryggingakerfið á Evrópusambandssvæðinu var meingallað."

Geir bætti því við að Íslendingar væru ákveðin fórnarlömb í því máli. „Mér finnst ekki til fyrirmyndar hvernig þetta bandalag beitti aflsmunar gagnvart okkur."