Geir H. Haarde segir að þeir sem hvatt hafi til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins síðustu vikurnar hafi vitað hvað slíkt samstarf fæli í sér.

Þetta sagði Geir í ræðu á Alþingi fyrir stundu en þar er nú til umræðu skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF).

Geir var þar með að svara gagnrýni sem komið hafði fram á Alþingi í umræðunum um að það hafi verið IMF en ekki ríkisstjórnin sem setti skilyrði um stýrivaxtahækkun Seðlabankans í vikunni.

Geir sagði að þeir hagsmunaaðilar sem hvatt hefðu til samstarfs við IMF á síðustu vikum, og vísaði meðal annars til stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins, hefðu allir gert sér grein fyrir því hvað slíkt samstarf fæli í sér. Því þyrfti stýrivaxtahækkun Seðlabankans ekki að koma á óvart.

Þá sagði Geir að hækkun stýrivaxta hefði tilgang um þessar mundir og væri því ekki komin til að tilefnislausu. Hann sagðist þó vona að hægt verði að lækka vexti eins fljótt og unnt er.