Geir H. Haarde forsætisráðherra segir ljóst að stýrivaxtahækkunin eigi eftir að koma illa við ýmsa. Verðbólgan sé þó verri. „Og það þarf að koma henni niður," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Seðlabankinn kynnti í morgun hækkun stýrivaxta um 6 prósentustig, úr 12% í 18%.

Að sögn Geirs er hækkunin liður í þeirri efnahagsstefnu sem mótuð hefur verið vegna fyrirhugaðrar aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

„Þetta er hluti af bráðaaðgerð sem fylgir samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það verður að hafa í huga að þessi aðgerð er fyrst og fremst hugsuð til þess að veita viðspyrnu á gjaldeyrismörkuðum. Henni er ætlað að laða að gjaldeyri heim og koma í veg fyrir að hann streymi úr landi og þannig hjálpa til við að koma á stöðugu gengi krónunnar."

Þegar það markmið næst, segir Geir, mun draga hratt úr verðbólgu og þar með munu vextir lækka aftur. Gert sé ráð fyrir því að þessir háu vextir séu til skamms tíma. „Þetta er hluti af pakkanum og gengið er út frá því að þetta geti gengið hratt yfir."