Íslenska ríkið er algjörlega staðfast í þeirri ákvörðun sinni að tryggja íslensku bönkunum áfram heppilegt starfsumhverfi til að sigurganga þeirra geti haldið áfram, að því er fram kom í ræðu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra á fundi Íslensk-Ameríska verslunarráðsins sem lauk fyrir nokkrum mínútum í New York. Hann sagði einnig undirstoðir íslensku bankanna styrkar og að þær efasemdir sem fram hafa komið í þeirra garð erlendis séu á engan hátt réttlætanlegar.

„Íslensku bankarnir hafa sannarlega fundið fyrir áhrifum yfirstandandi ólgu á alþjóðlegum fjármálamarkaði, sem tálmað hefur aðgengi flestra alþjóðlegra banka að fjármagni og gert það kostnaðarsamara,” sagði Geir.

„Hvernig sem því líður er staða íslensku bankanna áfram sterk samkvæmt íslenska fjármálaeftirlitinu, sem bendir á að tiltölulega hátt eiginfjárhlutfall, góð lausafjárstaða, aukið hlutfall innlána í fjármögnun og geta þeirra til að standast ströng álagspróf, sem stjórnvöld standa reglulega fyrir. Allt bendir til heilbrigðrar stöðu íslensku bankanna og ég er sannfærður um að þeir munu standa af sér núverandi óveður á fjármálamörkuðum.”