Hyggilegast hefði verið strax í haust að freista þess að mynda þjóðstjórn allra flokka. Þetta sagði Geir H. Haarde, fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sinni á landsfundi flokksins sem hófst í dag.

„Hún hefði hugsanlega getað setið út veturinn, gert nauðsynlegar ráðstafanir í efnahags- og atvinnumálum og undirbúið kosningar," sagði hann um þjóðstjórnina.

„Vandinn var sá að vinstri grænir, sem vildu komast í þjóðstjórn, vildu láta kjósa strax í nóvember og voru algjörlega á móti samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Samfylkingin var hins vegar á móti þjóðstjórn af ýmsum ástæðum og ég gaf þennan kost frá mér að vandlega athuguðu máli."

Geir sagði að þegar áramótin nálguðust hefðu formenn stjórnarflokkanna átt ítarlegar viðræður um möguleika á margs konar breytingum, m.a. á ríkisstjórninni. „Var mín hugmynd sú að formaður Samfylkingarinnar yrði fjármálaráðherra samhliða annarri uppstokkun í stjórninni," sagði hann.

„Ein af hugmyndunum sem voru ræddar af minni hálfu á þessum tíma var hugsanleg sameining eða aukið samstarf Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Fékk ég kunnan innlendan hagfræðing til að skoða það mál, fulltrúar gjaldeyrissjóðsins voru beðnir um hugmyndir í þessu efni og beðið var álits hins finnska fjármálasérfræðings sem fenginn var hingað til lands á vegum ríkisstjórnarinnar. En þetta var ekki nóg fyrir Samfylkinguna sem var meira upptekin af þeim einstaklingum sem sátu í bankastjórn Seðlabankans en málefnalegum breytingum, eins og kom í ljós þegar minnihlutastjórnin nýja tók við völdum."