Geir H. Haarde forsætisráðherra kveðst eiga von á því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni taka fyrir umsókn Íslendinga eftir helgi. Ekki hefur náðst lausn í Icesave-málinu en að sögn Geirs þokast málið í átt að lausn.

Þetta kom fram í máli Geirs á blaðamannafundi sem nú stendur yfir í Ráðherrabústaðnum. Geir sagði aðspurður að íslensk stjórnvöld hefðu gert "miklar athugasemdir" eins og hann orðaði það, við það að Icesave-málinu væri blandað saman við IMF-umsóknina.

Ingibjörg Sólrún sagði, varðandi Icesave-málið, að fyrst hefði verið gert ráð fyrir því, af hálfu Breta, að Íslendingar ábyrgðust öll innlánin á reikningum íslensku bankanna erlendis.

Nú væri hins vegar talað um það að Íslendingar ábyrgðust lágmarksupphæðirnar, þ.e. upp að 20.887 evrum. Hún sagði að viðsemjendur Íslendinga í þessari deilu væru ekki tilbúnir til þess að fallast á að nein réttaróvissa ríkti í þessu máli.

Bjartsýn á að umsókn verði tekin fyrir í næstu viku

Ingibjörg Sólrún og Geir sögðust ekki eiga von á öðru en að IMF afgreiddi umsókn Íslendinga í næstu viku.

Þá kváðust þau aðspurð ekki kannast við það að verið væri að kúga Íslendinga í Icesave-málinu en Geir H. Haarde sagði nýverið að hann myndi ekki láta kúga sig í því máli.