Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi í Iðnó í dag að ef það væri mat breskra stjórnvalda að leita til dómstóla vegna skuldbindinga Íslendinga í Bretlandi þá myndu íslensk stjórnvöld áskilja sér rétt til þess að leita til dómstóla komi það í ljós að bresk stjórnvöld hefðu með yfirlýsingum sínum valdið tjóni á íslenskum fyrirtækjum.

Fulltrúar frá breska fjármálaráðuneytinu, breska fjármálaeftlirlitinu og Englandsbanka eru á leið til landsins og munu funda með íslenskum stjórnvöldum á morgun vegna skuldbindinga Íslendinga í Bretlandi er varða Icesave-reikninga landsbankans.

Hann sagði að fulltrúar hollenskra stjórnvalda væru á leið til landsins í sömu erindagjörðum.

Langt í frá að Íslendingar nálgist gjaldþrot

„Enginn ráðamaður hefur haldið því fram að við munum ekki standa við okkar skuldbindingar út á við," sagði Geir. Hann kvaðst vonast til þess að þessi mál myndu leysast á fundunum um helgina.

Geir sagði að það væri langt í frá að við sem þjóð værum að nálgast gjaldþrot. Ríkissjóður væri skuldlaus og stæði betur en margir aðrir.