Geir H. Haarde forsætisráðherra kannast ekki við að Davíð Oddsson hafi sagt við sig í sumar að núll prósent likur væru á því að barnkarnir myndu standast fjármálakreppuna.

Þingmenn viðskiptanefndar þingsins hafa haft eftir Davíð að á júnífundi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar hafi Davíð sagt að núll prósent líkur væru á því að íslensku bankarnir myndu standa af sér fjármálakreppuna.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún vísaði þessu á bug.

Geir var spurður út í þetta í þættinum Vikulokunum í morgun. Þar sagði hann líka að enginn fundur hefði verið haldinn með Davíð í júní.  Hann kvaðst heldur ekki kannast við fyrrgreind ummæli Davíðs. Þá sagði hann að engar slíkar aðvaranir hefðu komið fram í opinberum gögnum Seðlabankans.

Geir sagði að þetta væri því eitthvað málum blandið, eins og hann orðaði það.